mobile
Leita

Nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja

Hvað er nærsýni?

Nærsýni orsakast oftast af því að augun eru of löng og því fellur fókuspunkturinn of framarlega í augað í stað þess að lenda á sjónhimnunni í augnbotninum. Með nærsýnisglerjum, sem eru þunn í miðju en þykk til jaðranna má færa fókusinn aftar í augað. Þetta eru kölluð mínusgler.
Sjá nánar.

Hvað er fjarsýni?

Fjarsýni er í raun það þveröfuga við nærsýni, þ.e. augað er of stutt og því fellur fókuspunkturinn aftan við augað í stað þess að lenda á sjónhimnunni í augnbotninum. Með fjarsýnisglerjum, sem eru þykk í miðju og þunn til jaðra má færa fókusinn framar í augað. Þetta eru kölluð plúsgler.
Sjá nánar.

Hvað er sjónskekkja?

Sjónskekkja veldur því að mynd verður skökk og út úr fókus. Þessu veldur oftast skekkja í hornhimnunni, sem er glær kúpull framan á auganu. Þessi kúpull á að vera eins og evrópskur fótbolti í laginu – í sjónskekkju er hann hins vegar eins og amerískur fótbolti í laginu. Því verður myndin skökk.
Sjá nánar.

Hvað er aldursbundin fjarsýni?

Það er algengur misskilningur að fjarsýni og aldursbundin fjarsýni séu einn og sami hluturinn, ekkert er fjær sanni. Aldursfjarsýnin kemur yfir okkur öll ef við erum svo heppin að verða eldri en fertug. Um er að ræða hæfileika augans til að fókusera á hluti nálægt okkur. Hér má líkja okkur við „auto-focus“ myndavélar þegar við erum ung, en við færumst nær því að verða eins og gömlu „instamatic“ vélarnar voru í gamla daga, sem gátu ekki fókuserað nálægt sér, þegar við eldumst. Þetta er orsakað af hörðnun á augasteininum, sem verður minna sveigjanlegur með aldri. Því er ekki rétt, eins og sumir halda, að nærsýni lagist með aldrinum.
Sjá nánar.

Hér að neðan má sjá fróðlegt myndband um nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju frá Ólafi Má Björnssyni, sérfræðingi í  í sjónhimnuskurðlækningum og laseraugnlækningum.