mobile
Leita

Sykursýki og augu

Sykursýki getur haft mikil áhrif á augu og augnbotna. Breytingar koma aðallega fram í sjónhimnu. Flestir sem hafa haft sykursýki lengur en 20 ár bera þess einhver merki í augnbotnum. Mjög mikilvægt er að fólk með sykursýki sé í reglubundnu eftirliti hjá augnlækni.

 Sykursýki getur leitt til alvarlegra augnvandamála. Oftast er um að ræða sjúkdóm í sjónhimnu (diabetisk retinopathia) en önnur vandamál s.s.  ský á augasteini koma einnig fyrir.

 Sjónhimnusjúkdómur kemur venjulega fram eftir að fólk hefur haft sykursýki í nokkur ár. Fyrstu merkin eru litlar blæðingar og æðapokar í háræðum sjónhimnu. Fólk verður yfirleitt ekki vart við fyrstu einkenni. Í framhaldi af þessu þróast stundum bjúgur í sjónhimnu, en sjónhimnubjúgur er algengasta orsök sjóndepru hjá sykursjúkum.

Hvað veldur?

Hjá sykursjúkum er hár blóðsykur mjög skaðlegur fyrir æðaveggi, sérstaklega í háræðum. Skemmdirnar valda leka og blæðingum sem aftur veldur því að súrefni berst ekki sem skyldi til líffæranna. Nýru, heili, hjarta og augu eru þau líffæri sem verða harðast úti. Í augnbotnum veldur súrefnisskortur skemmdum á ljósnemum sem getur leitt til blindu ef ekkert er að gert.

Helstu einkenni

  • Minnkuð sjónskerpa
  • Þokublettur miðlægt í sjónsviði
  • Bjögun sjónar miðlægt í sjónsviði

Í sumum sykursjúkum augum myndast nýjar æðar sem svar við súrefnisskorti. Þær eru viðkvæmar og geta rifnað og valdið blæðingum inni í auganu. Örvefsmyndun og sjónhimnulos getur fylgt í kjölfarið ef ekkert er að gert. Þetta er alvarlegasta stig sjúkdómsins og er veruleg hætta á blindu þegar svo er komið.

_SOS3939

Hvað skal gera?

Mjög mikilvægt er að vera í reglubundnu eftirliti hjá augnlækni þar sem fylgst er með breytingum í augnbotnum. Ýmsar rannsóknir þarf að gera til að fá nákvæma greiningu og þannig ákvarða rétta meðferð ef þörf krefur.
Æðamyndataka sýnir blóðflæði í augnbotnum og mögulega skerðingu á því.
Æðamyndataka af augnbotni með sykursýkisbreytingar.
OCT sneiðmyndataka auðveldar eftirlit eftir meðferðir og veitir viðbótarupplýsingar við greiningu.
OCT sneiðmynd af miðgróf augnbotns.
Sjónsviðsmæling gefur hugmynd um starfsemi í miðgróf.
Sjónsviðsmæling í miðgróf augnbotns.

Meðferð

Meðferðir við sjónhimnusjúkdómi tengdum sykursýki eru; lasermeðferð, sem er fyrst og fremst fyrirbyggjandi, lyfjameðferð sem mun aukast í framtíðinni og skurðaðgerðir, ef sjónin hefur þegar daprast. Lasermeðferðin á best við um minniháttar bjúg eða við æðanýmyndun áður en meiriháttar blæðing hefur orðið. Þetta þýðir að lasermeðferðin á best við á þeim tíma þegar augun eru tiltölulega einkennalaus, enda er lasermeðferðin fyrst og fremst gagnleg til að hindra sjóntap frekar en að bæta sjón sem þegar hefur tapast. Því er nauðsynlegt að skoða augu sykursýkissjúklinga reglulega, til að finna minni háttar bjúg og æðanýmyndun og meðhöndla fyrirbyggjandi áður en sjóntap verður.

Augneftirlit sykursjúkra einu sinni á ári

Flestir sykursýkissjúklingar á Íslandi koma í reglulegt eftirlit þar sem fylgst er með breytingum á sjónhimnu og öðrum hlutum augna. Venjulega er eftirlitið árlega, en fer þó eftir aðstæðum. Þetta forvarnarstarf miðar að því að halda sykursýkisblindu í skefjum á Íslandi, en sykursýki er ein meginorsök blindu á Vesturlöndum. Sjóntap vegna sykursýki er nú sjaldgæfara á Íslandi en í nágrannalöndunum.       

 

Hafðu samband - við aðstoðum

Hjá Sjónlagi starfa átta augnlæknar, þrír sjóntækjafræðingar og fimm hjúkrunarfræðingar, sem veita faglega ráðgjöf.

Hringdu í okkur núna!
577 1001
Smelltu hér til að hafa samband