mobile
Leita

Ský á augasteini

Augasteinninn er mjúkur og breytir auðveldlega um lögun hjá þeim sem yngri eru. Með hækkandi aldri breytist augasteinninnn, hann harðnar og stækkar. Ský á augasteini nefnist það þegar tærleiki augasteinsins minnkar og sjónin skerðist. Ský á augasteini getur komið fyrir á öllum aldri en algengi þess eykst mikið með hækkandi aldri. Eina meðferðarúrræðið er að fjarlægja augasteininn og setja gerviaugastein í staðinn. Talið er að útfjólubláir geislar sólarinnar séu helsti orsakavaldur skýs á augasteini. Sykursýki, barksterar og reykingar auka á áhættuna.

Einkenni

Eitt eða fleira af eftirfarandi geta m.a. verið einkenni skýs á augsteini: þokusjón, versnun á nætursjón, glýja (t.d. útdregin ljós), aukin nærsýni (getur átt auðveldara með lestur án gleraugna tímabundið), versnun á lessjón, tvísýni, minnkað litaskyn (daufari litir). Ofantalin einkenni geta einnig verið vegna annarra augnsjúkdóma og því eiga þeir sem hafa þessi einkenni að leita til augnlæknis.

Cataract-Simulatorfrá AAO.org

Meðferð

Meðferðin við skýi á augasteini er fólgin í aðgerð þar sem augsteinninn er fjarlægður og gerviaugasteinn settur í staðinn. Ef ský á augasteini veldur sjúklingi einkennum (sbr. ofan), sérstaklega ef þau hamla daglegu lífi, er rétt að íhuga skurðaðgerð. 

Meiri upplýsingar hér.

Nýjar tegundir gerviaugasteina

Sjúklingar sem fá hefðbundna gerviaugasteina fá yfirleitt góða sjón, sérstaklega til að sjá frá sér. Flestir sjúklinganna þurfa þó að nota gleraugu til að sjá vel nálægt sér, t.d. við lestur.

Augasteinaskipti hafa verið framkvæmd í áratugi og því komin mikil og góð reynsla af aðgerðinni. Algengast er að aðgerðin sé gerð til að fjarlægja ský á augasteini en í vissum tilvikum er aðgerðin besta aðferðin til að laga sjónlagsgalla (nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju).

Stöðugt eru í þróun nýjar tegundir gerviaugasteina sem eiga það sameiginlegt að gera einstaklinga minna háða gleraugum. Aðgerð með fjölfókus augasteinum gæti komið sér vel fyrir þá sem komnir eru yfir sextugt eða eru með þunnar hornhimnur eða mikinn sjónlagsgalla. Einn af kostum aðgerðarinnar er að sá sem hefur undirgengist augasteinaskipti á ekki á hættu að fá ský á augastein síðar meir. Fyrir þá sem vilja geta lesið án lesgleraugna er augasteinaskipti með ísetningu fjölfókus gerviaugasteins góður kostur.

Hér að neðan má sjá fróðlegt myndband um ský á augasteini frá Óskari Jónssyni augnlækni.