mobile
Leita

Gláka

Gláka er hægfara ættgengur sjúkdómur sem ómeðhöndlaður getur valdið skerðingu á sjónsviði. Þetta þýðir að einstaklingur með gláku sem ekki er meðhöndluð hættir smám saman að sjá út undan sér, þ.e. hluti sem eru utarlega í sjónsviði.

Sjúkdómurinn orsakast af skemmdum í sjóntaug, tauginni sem liggur frá auga til heilans. Oft er gláka tengd hækkuðum augnþrýstingi (þrýstingur inni í auganu, líkt og loftþrýstingurinn í bolta) en þó er það ekki nauðsynlegt.

Talið er að sjóntaug einstaklinga með gláku sé viðkvæm fyrir augnþrýstingi og skemmist hægt og bítandi. Smám saman þrengist sjónsvið viðkomandi og getur sjónin orðið lík því að horfa í gegnum rör (tunnel vision). Ef ekkert er að gert versnar miðjusjón og einstaklingurinn getur orðið blindur.

Gláka var ein af algengustu orsökum blindu hér á landi á árum áður enda þekkja margir hugtakið glákublinda. Með bættri meðferð er hægt að greina gláku á byrjunarstigum sjúkdómsins og meðhöndla með einfaldri augndropameðferð._SOS3685

Greining og meðferð

Sjónlag býður upp á fullkomnasta tæki hér á landi við greiningu á gláku, svokallað sjónsviðsmælingartæki. Með tækinu má greina sjónsviðsskaða af völdum gláku af mikilli nákvæmni á frumstigum sjúkdómsins. Meðal annars er boðið upp á svokallaða “blátt á gulu” greiningarmeðferð (blue-on-yellow), sem greinir gláku á algjöru byrjunarstigi. Auk sjónsviðsmælingar er mikilvægt að skoða sjóntaugarnar nákvæmlega með augnbotnaskoðun.

Jafnframt þessu er augnþrýstingur mældur og skráður auk þess sem mikilvægt er að mæla þykkt hornhimnu. Reynist viðkomandi vera með gláku er hafin meðferð með augndropum sem lækka augnþrýstinginn, svokölluðum glákudropum. Í flestum tilvikum nægir meðferð með glákudropum en í sumum tilvikum dugir það ekki til. Þá er unnt að beita svokallaðri lasermeðferð sem beitt er til að auka útflæði augnvökvans úr auganu um sérstök göng í fremri hluta þess (argon laser trabeculoplasty). Í undantekningartilfellum er hvorki hægt að stjórna augnþrýstingi með lyfjum né lasermeðferð. Þá er hægt að framkvæma skurðaðgerð, þar sem útflæði augnvökvans er aukið, svokallaða fráveituaðgerð (trabeculectomy). 

Miklar framfarir hafa orðið á undanförnum áratugum í greiningu og meðferð gláku. Í raun má segja að með reglulegum augnskoðunum hjá augnlækni megi nánast algjörlega koma í veg fyrir blindu af völdum þessa fyrrum skaðlega sjúkdóms.

Hafðu samband - við aðstoðum

Hjá Sjónlagi starfa átta augnlæknar, þrír sjóntækjafræðingar og fimm hjúkrunarfræðingar, sem veita faglega ráðgjöf.

Hringdu í okkur núna!
577 1001
Smelltu hér til að hafa samband