Ellifjarsýni kemur til af því að augasteinninn stirðnar með aldrinum og þar með skerðist hreyfigeta hans. Smám saman missir því augað getu til að fókusera á hluti í mismunandi fjarlægð (accommodation). Ljósgeislarinir ná því ekki fókus áður en þeir lenda í miðgróf augans í augnbotni og myndin verður því ekki í fókus.
Með PresbyMax frá Schwind er nú mögulegt að bæta verulega ellifjarsýni og gera nærvinnu mögulega án gleraugna, einnig hjá þeim sem hafa aðra sjónlagsgalla til viðbótar.
Með aldrinum minnkar hæfileiki augasteinsins til að breyta um lögun (eins og myndavél með sjálfvirkan "fókus") (verður líkt og myndavél með fastan ,,fókus"). Á þennan hátt minnkar hæfileikinn til að fókusera á hluti sem eru nálægt manni og í leiðinni minnkar lesgetan. Þessi hrörnun á sér stað hjá öllum með aldrinum en algengast er að einkenna verði vart upp úr fertugu. Fyrsta einkennið er að halda þarf hlutum (t.d. bókinni) frá sér til þess að sjá skýrar en síðan kemur kemur að því að það dugar ekki til. Hvað er til ráða?
Þeir sem ekki hafa áður þurft að nota gleraugu geta notað lesgleraugu. Sumum dugar að kaupa ódýr lesgleraugu í verslun en til þess að ná bestu mögulegu lessjón þarf oft að láta mæla fyrir lesgleraugum af augnlækni eða sjóntækjafræðingi.
Þeir sem hafa áður þurft að nota gleraugu vegna sjónlagsgalla (t.d. nærsýni, fjarsýni eða sjónskekkju) kjósa oft að geta bæði horft frá sér og lesið með sömu gleraugunum. Lagskipt gleraugu eða svokölluð varilux gleraugu (stiglaus breyting yfir í leshluta) henta þeim því oft vel.
Margskiptar linsur bjóða upp á möguleikann að sjá áfram, bæði nálægt og í fjarlægð,eins og fólk gerði áður, með einni og sömu linsunni. Þær eru hannaðar til að horfa í mjúkum áreynslulausum fókus bæði fjær og nær. Ekki er þó hægt að segja að maður öðlist alveg unglingssjónina aftur en þær henta sumum einstaklingum mjög vel, fer alltaf aðeins eftir sjónlagi.
Best er að koma við, fá ráðgjöf og prófa par hjá sjóntækjafræðingi.
Hefðbundnir gerviaugasteinar eru með fókus í einni fjarlægð. Þetta þýðir að þeir sem fá slíka gerviaugasteina fá skýra sjón í einni fjarlægð, yfirleitt sjá þeir því ekki skýrt nálægt sér. Flestir þurfa því að nota gleraugu t.d. við lestur. Stöðugt eru í þróun nýjar tegundir gerviaugasteina sem eiga það sameiginlegt að gera einstaklinga minna háða gleraugum, svokallaðir fjölfókus gerviaugasteinar. Rannsóknir sýna að um það bil 8 af hverjum 9 sjúklingum sem fá þessar tegundir gerviaugasteina þurfa aldrei að nota gleraugu. Þeir eru því spennandi valkostur við hefðbundna gerviaugasteina fyrir þá sem eru með ský á augsteini og vilja geta séð sem mest án gleraugna eftir augasteinsaðgerð. Þeir eru ekki síður spennandi kostur fyrir þá sem eru þreyttir á gleraugunum og vilja geta séð bæði nálægt sér og frá sér gleraugnalaust.
Sumir snertilinsunotendur kannast við að nota snertilinsu aðeins öðrum megin en lesa án linsunnar hinum megin. Þeir nota því annað augað við að horfa á hluti fjarri sér en hitt til að lesa o.þ.h. nærri sér. Iðulega er ríkjandi auga (það auga sem við notum meir, s.s. við að skjóta í mark) leiðrétt fyrir fjarlægð en hitt augað fyrir nálægð. Þetta er kallað skiptisjón og hentar mörgum einstaklingum en ekki öllum. Sumum finnst óþægilegt að skipta yfir á þennan hátt og sjá óskýrt fjarri sér með víkjandi auganu. Afbrigði af þessu er kallað hlutaskiptisjón (partial monovision), en þá er ríkjandi augað leiðrétt að fullu, en hitt augað að hluta til. Í þessu tilviki sér viðkomandi örlítið óskýrt í fjarlægð með víkjandi auganu en getur lesið stærra letur nærri sér. Þetta fyrirkomulag getur tafið fyrir því að nota lesgleraugu um nokkur ár og er oft góð málamiðlun. Auk snertilinsa er hægt að fá fram skiptisjón með LASIK aðgerð, ICLTM linsum og augasteinsskiptum (clear lens extraction).
Hér að neðan má sjá fróðlegt myndband um aldurstengda fjarsýni frá Ólafi Má Björnssyni augnlækni.
Hjá Sjónlagi starfa átta augnlæknar, þrír sjóntækjafræðingar og fimm hjúkrunarfræðingar, sem veita faglega ráðgjöf.