mobile
Leita

Femto-LASIK hníflaus sjónlagsaðgerð

Femto-LASIK er staðbundin aðgerð framkvæmd með laser sem veldur breytingu á lögun hornhimnu.

  • Meira öryggi:
    Minni líkur á að flipinn sem er gerður á hornhimnu verði of lítill eða að fellingar eða yfirborðsskemmdir myndist. Einnig minni líkur á bólgu eða sýkingu og minni líkur á að til enduraðgerðar komi. 

  • Þynnri flipar:
    Minna er gengið á þykkt hornhimnunnar og hún er því sterkari eftir aðgerð. Þetta eykur öryggi til lengdar og minnkar líkurnar á svokallaðri ectasiu, sem er helsta langtímaáhætta slíkra aðgerða þótt mjög sjaldgæf sé. 

  • Aukin nákvæmni:
    Femto-tæknin gerir flipa með mun meiri nákvæmni en hefur verið möguleg hingað til. Stærð, lögun og lega flipans er fyrirfram ákveðin og þannig er ekkert sem kemur á óvart. 

  • Betri tækni:
    Lasertæknin byggir á mun meiri hraða, en lægri orku. Þetta hlífir hornhimnunni og hefur lágmarksáhrif á vefina í kring. Laserinn er einnig einn sá nákvæmasti á markaðnum. 

  • Þægindi:
     Laserinn nýtir soghringi sem minnka þrýsting á augað við sog sem lágmarka óþægindi í þær fáu sekúndur sem meðferðin tekur.

Hvernig virkar Femto-LASIK aðgerðin?

Líkt og í flestum sjónaðgerðum býr tækið til flipa á hornhimnu með laser og breytir svo lögun hornhimnunnar með öðrum laser. Þar með breytist hæfni himnunnar til að brjóta ljós.

Hornhimna í nærsýni er gerð flatari til að hún brjóti ljós minna. Hornhimna í fjarsýni er gerð kúptari svo hún brjóti meira ljós.

Femtolasik  

Myndin lengst til vinstri sýnir fyrsta stig LASIK-aðgerðar sem felst í því að útbúa flipa með Femtosecond Laser.

Önnur myndin sýnir augað eftir að flipinn hefur verið gerður. Flipinn er fastur á einum stað á einskonar hjörum og er lagður til hliðar áður en laser-meðferðinni er beitt.

Þriðja myndin sýnir hvernig laserinn fjarlægir síðan fyrirfram ákveðna þykkt úr hornhimnunni.

Fjórða myndin sýnir hornhimnuna eftir að flipinn hefur verið settur á sinn stað aftur. Flipinn festist sjálfkrafa á hornhimnuna innan fimm mínútna án þess að saumar séu notaðir.