mobile
Leita

Algengar spurningar varðandi laseraðgerðir

_SOS4241Hver er munurinn á hníflausum aðgerðum og hefðbundinni LASIK-aðgerð?

Sjónlag býður upp á tvær tegundir hníflausra sjónlagsaðgerða; Femto-LASIK og TransPRK SmartPulse.

Femto-LASIK tæknin er sú aðferð sem flestir velja við sjónlagsaðgerð erlendis og hefur fest sig í sessi sem besti kostur í sjónlagsaðgerðum. Við allar LASIK aðgerðir er nauðsynlegt að búa til flipa á hornhimnunni og hefur það hingað til verið gert með hnífsblaði í svokallaðri flipavél.

Femto-LASIK tæknin byggir á því að flipinn er gerður með lasergeisla sem þýðir að aðgerðin er öll gerð með laser. Enginn hnífur kemur nálægt auganu. 

Kostir Femto tækninnar eru fyrst og fremst meira öryggi við gerð flipans, þynnri flipi og þar með sterkari hornhimna. Þetta hefur færri fylgikvilla í för með sér, auk þess sem bati er fljótari og sjónlag stöðugra. Þar með hefur tíðni enduraðgerða lækkað1.

TransPRK SmartPulse er einnig hníflaus aðgerð en er frábrugðin Femto-LASIK að því leyti að flipi er ekki gerður á hornhimnuna. Þannig heldur hún styrk sínum enn betur.

Augu mín eru viðkvæm og ég er ekki viss um að geta verið kyrr. Get ég samt farið í aðgerð?

Öll augu er viðkvæm og hvert auga er einstakt. Sjónlagsaðgerðir eiga að vera án verkja og þér á að líða vel á meðan aðgerð stendur. Við hjálpum þér til þess. Þú færð deyfidropa sem koma í veg fyrir að þú finnir sársauka og þér er boðin róandi tafla sem hjálpar þér að slaka á. Laser Sjónlags er af gerðinni Schwind, Amaris 750S. Hann formar hornhimnuna 750 sinnum á sekúndu sem gerir meðferðartímann mjög stuttan. Þessi laser er sá hraðvirkasti hér á landi. Öryggi er síðan tryggt með öflugu eltikerfi sem felst í því að laserinn fylgist með hreyfingum augans í 6 víddum (6D) og slekkur á sér ef augað fer út fyrir öryggismörkin. Að auki vakir læknirinn yfir meðferðinni í gegnum smásjá.

_SOS4031Hvað tekur aðgerðin langan tíma?

Undirbúningurinn fyrir aðgerðina tekur lengstan tíma. Taflan þarf að fá að virka og þú færð tækifæri til að slaka svolítið á í hvíldarherberginu okkar, lesa vel upplýsingarnar og fá svör við spurningum sem upp kunna að koma. Laseraðerðin sjálf tekur mjög stutta stund, eða 10-15 mínútur, bæði augu. Heildartíminn sem allt ferlið tekur er 60-90 mínútur með undirbúningi.

Þarf oft að gera aðgerðina aftur?

Kísilflögur sem notaðar eru í tölvur eru búnar til með geisla eins og þeim sem við notum til að endurmóta augun þín. Allar kísilflögurnar verða nákvæmlega eins vegna þess hversu nákvæmur geislinn er. Við erum hins vegar að meðhöndla lifandi vef og allir eru ólíkir innbyrðis. Því lenda ekki allir geislarnir nákvæmlega á þeim punkti sem ætlað var, þótt flestir geri það. Í sumum tilvikum þarf því að framkvæma aðgerðina í tveimur skrefum til að ná tilætluðum árangri. Því ber að varast að halda að aðgerð hafi „misheppnast“ þótt framkvæma þurfi enduraðgerð.

Enduraðgerð með Femto-LASIK er framkvæmd á þann hátt að nýr flipi er ekki búinn til, heldur er þeim flipa sem fyrir er lyft upp með sérstöku áhaldi. Fólk finnur enn minna fyrir enduraðgerð en upphaflegu aðgerðinni.

Enduraðgerð með TransPRK SmartPulse er enn einfaldari, því enginn flipi var gerður á hornhimnuna og því er aðgerðin í raun bara endurtekin eftir því sem þarf.

Er aðgerðin varanleg?

Samkvæmt langtíma rannsóknum sem gerðar hafa verið eru áhrif LASIK og TransPRK SmartPulse stöðug og varanleg2 3.

_SOS8926Fá allir 100% sjón sem fara í aðgerð?

Áður en þessari spurningu er svarað er rétt að gæta að muninum á sjónlagsaðgerðum annars vegar og sjónglerja og snertilinsa hins vegar. Annars vegar er verið að tala um lækningu, hins vegar um hækjur og hjálpartæki. Því er ólíku saman að jafna. Tilgangur laseraðgerða er að gera fólk eins lítið háð sjónhjálpartækjum og hægt er. Í flestum tilvikum heppnast það mjög vel og viðkomandi getur verið gleraugna- eða snertilinsulaus. Það er þó mikilvægt að átta sig á því að það gera ekki allir. Um 2% sjúklinga þurfa að nota gleraugu eftir aðgerð, en eru þó miklu óháðari þeim en áður. Það er mikilvægt að átta sig á því að fylgikvillar LASIK-aðgerðar geta í örfáum tilfellum gert sjón einni eða tveimur línum verri en hún var fyrir aðgerð. Oftast er hægt að laga það að fullu. Á móti eru mörg dæmi þess að sjón án glerja sé mun betri en sjón með bestu glerjum var fyrir aðgerð.

Get ég orðið blindur eða sjónskertur eftir LASIK?

Blindu hefur ekki verið lýst eftir LASIK-aðgerð. Í undantekningartilfellum getur sjúklingur upplifað versnun á sjón eftir aðgerð (oftast ekki meira en 1-2 línur á sjónmælispjaldi), tvísýni, bauga í kringum ljós eða ljósfælni.

Hins vegar hefur verið greint frá einstaklingum sem hafa orðið blindir á báðum augum í kjölfar hornhimnusára sem myndast hafa í kjölfar snertilinsunotkunar og einnig vegna glerbrota sem stungist hafa í augu við að gleraugu brotna. Ekkert er 100% í veröldinni og því er áhætta falin í öllum valkostunum þremur. 

Við gerum okkar besta í að halda þeirri áhættu í lágmarki á þrjá vegu:

  1. Við tökum einungis í aðgerð þá sem eiga mjög góða möguleika á tilætluðum árangri og höfum við því hafnað 25-30% þeirra sem hafa komið í forskoðun.
  2. Í öðru lagi notum við einungis nýjustu tækni við aðgerðirnar og augnlæknar okkar búa yfir mikilli þekkingu og reynslu.
  3. Í þriðja lagi fylgjum við sjúklingum okkar mjög vel eftir og skoðum þá daginn eftir aðgerð, tveimur vikum eftir aðgerð, þremur mánuðum og loks sex mánuðum að aðgerð lokinni.

Við fræðum sjúklinga vel fyrir aðgerðina. Ávallt þarf að gæta að búnaði, öryggi og aðstæðum áður en haldið er af stað. Þekking þarf að vera til staðar og gætni. Næg fræðsla og kennsla þarf að eiga sér stað á undan. Væntingarnar þurfa að vera réttar. Ef læknirinn og sjúklingurinn vinna saman er hægt að halda áhættu í algjöru lágmarki. Við stöndum við það. 

1. Durrie DS, Brinton JP, Avila MR, Stahl ED. Evaluating the speed of visual recovery following thin-flap LASIK with a femtosecond laser. J Refract Surg 2012, Sep;28(9):620-4.

2. Tomita M, Waring GO, Magnago T, Watabe M. Clinical results of using a high-repetition-rate excimer laser with an optimized ablation profile for myopic correction in 10 235 eyes. J Cataract Refract Surg 2013, Oct;39(10):1543-9.

3. Dirani M, Couper T, Yau J, Ang EK, Islam FM, Snibson GR, et al. Long-term refractive outcomes and stability after excimer laser surgery for myopia. J Cataract Refract Surg 2010, Oct;36(10):1709-17.

Panta tíma í forskoðun