Engin aðgerð er án áhættu. Sjónlagsaðgerð mætti líkja við að klífa fjall; umbun fylgir því að komast á toppinn en til þess að komast þangað þarf að taka einhverja áhættu. Áhætta af völdum sjónlagsaðgerða er mjög lítil en þó til staðar. Þó má segja að þessi aðgerð sé ein af öruggustu augnaðgerðum sem framkvæmdar eru.
Hver og einn þarf að gera upp við sig í góðu tómi þá kosti og galla sem fylgja sjónlagsaðgerð og bera saman við þær úrlausnir sem fyrir eru, það er gleraugu og snertilinsur. Enginn valkostur er alveg hættulaus því gleraugu og snertilinsur geta einnig haft fylgikvilla í för með sér sem minna er rætt um, svo sem sýkingar af völdum snertilinsa og skurði á auga eftir brotin gler.
Eðlilegt er að augun séu þurr eftir aðgerð og því þarf að nota gervitár í að minnsta kosti tvo til þrjá mánuði eftir aðgerð og stundum lengur.
Bólguviðbrögð eru eðlileg eftir allar skurðaðgerðir. Í einstaka tilvikum (1-5%) verða þó bólguviðbrögð heldur meiri en ella eftir Femto-LASIK aðgerð. Sjást þá bólgufrumur undir flipanum. Þetta getur valdið breytingum á sjón, en oftast er það tímabundið. Stundum þarf að auka bólgueyðandi dropagjöf á meðan bólgan gengur yfir, sem tekur yfirleitt nokkra daga. Þetta gerist sjaldnar eftir TransPRK SmartPulse aðgerð.
Borið saman við eldri tækni með hnífsblaði í flipavél hefur Femto-LASIK tæknin dregið verulega úr þekjuvexti undir flipa og lætur nærri að þessi fylgikvilli sé úr sögunni með Femto-LASIK. Femto-laserinn gerir fínni og nákvæmari skurð þannig að flipinn leggst þétt við hornhimnuna aftur. Á nokkrum klukkustundum vex síðan þekja hornhimnunnar yfir jaðrana og lokar skurðlínunni. Í algjörum undantekningartilvikum (0,1%) þarf að lyfta flipa degi eftir aðgerð og lagfæra áður en hann er lagður niður aftur. Í TransPRK SmartPulse aðgerð er enginn flipi gerður á hornhimnuna og þar er því engin hætta á þessum fylgikvilla.
Sýking er afar sjaldgæfur fylgikvilli sjónlagsaðgerðar og hefur ekki verið lýst hér á landi svo vitað sé. Komi sýking upp er í langflestum tilvikum hægt að uppræta hana með sýklalyfjum.
Þrátt fyrir að í flestum tilvikum sé fólk minna háð gleraugum og snertilinsum eftir aðgerð, þá getur orðið eftir einhver sjónlagsgalli; nærsýni, fjarsýni eða sjónskekkja. Stundum þarf því að fínstilla meðferðina. Afar sjaldgæft er að fleiri skref þurfi til, en það er algengara ef upphaflegur sjónlagsgalli er mikill. Í flestum tilfellum er hægt að beita endurmeðferð til að færa sjónlagið nær settu marki. Tíðni endurmeðferðar er um 1-8% og er hæst hjá þeim sem hafa mestan sjónlagsgalla fyrir aðgerð.
Langoftast er hornhimnubeðurinn afar sléttur eftir lasermeðferð. Í undantekningartilfellum geta verið örlitlar misfellur á beðnum, sem valda því að sjónskerpa minnkar um 1-2 línur. Þetta gerist sjaldnar en í 0,5% tilvika og er yfirleitt hægt að lagfæra með enduraðgerð. Tíðni þessa fylgikvilla hefur minnkað mjög með fullkomnari lasertækjum sem búin erum hraðvirkum eltigeislum sem og nákvæmari flipaskurði. Sérsniðin meðferð sem nýjustu lasertækin bjóða uppá lagfærir slíkar breytingar á mjög nákvæman hátt, þá sjaldan sem þess gerist þörf.
Smávægileg glýja eftir laseraðgerð á hornhimnu er ekki óalgeng fyrstu vikurnar eftir aðgerð. Stundum er þetta kölluð „vaselínsjón“, og orsakast fyrst og fremst af vökvabreytingum í flipanum. Glýjan minnkar með tímanum og hverfur svo smám saman. Það kemur þó fyrir að þessi einkenni haldist í nokkra mánuði eftir aðgerð.
Einstöku sinnum tekur fólk eftir hringjum í kringum ljós, einkum þegar dimmir. Þetta gerist þegar sjáaldrið stækkar og sér í gegnum hluta af hornhimnunni sem ekki hefur verið meðhöndlaður. Þetta getur einnig verið vegna vökvasöfnunar í flipa, sem hverfur þá með tímanum. Það er óalgengt að ljósbaugar hafi áhrif á dagleg störf, en er þó algengara meðal þeirra sem eru með stór sjáöldur og/eða mikinn sjónlagsgalla fyrir aðgerð.
Í einstaka tilvikum hefur hliðrun á meðferðarsvæði verið lýst, einkum vegna augnhreyfinga skjólstæðings, eða vegna tilfærslu geisla út frá miðju meðferðarsvæðis. Hliðrun var oftar vandamál áður fyrr en með tilkomu nákvæmari tækja á hún sér nánast aldrei stað lengur. Til að lagfæra hliðrun er sérsniðinni meðferð beitt.
Líkt og eftir allar aðgerðir, þá eru alvarlegri fylgikvillar en fyrr hafa verið nefndir ekki útilokaðir. Alvarlegasti fylgikvilli allra augnaðgerða er blinda. Blinda vegna Femto-LASIK og TransPRK SmartPulse er sem betur fer óþekkt, þrátt fyrir að hartnær 30 milljónir manns víða um heim hafi verið meðhöndlaðar til þessa. Blindu hefur hins vegar verið lýst í kjölfar notkunar gleraugna og snertilinsa, þó það sé sem betur fer sjaldgæft.
Lasik ectasia, eða keilumyndun í hornhimnunni, er ástand sem getur skapast eftir sjónlagsaðgerð. Þá verður veiking í hornhimnunni þannig að hún aflagast og sjón getur versnað. Þetta er alvarlegt ástand og er tíðni þess ca 1/8000 aðgerðum. Mun sjaldgæfara er að sjá slíkt við TransPRK SmartPulse. Meðferðin við þessu er svo kölluð Cross-linking meðferð sem styrkir hornhimnuna og stöðvar frekari breytingar.
Panta tíma í forskoðun