mobile
Leita

Aðgerðin sjálf

Fyrir aðgerð þarftu að:

  • Vera án snertilinsa í að minnsta kosti eina viku fyrir aðgerð.
  • Fá einhvern til að keyra þig heim eftir aðgerð eða taka leigubíl. 
  • Ganga frá greiðslu og skrifa undir upplýst samþykki fyrir aðgerðinni.
  • Þú þarft ekki að fasta fyrir aðgerð.


Aðgerðin

Við gerum allt til að hafa andrúmsloftið sem þægilegast og að vel fari um þig fyrir aðgerðina og meðan á henni stendur. Yfirleitt talar fólk um að þetta sé miklu minna mál en það hafi haldið.

  • Fyrir aðgerðina færðu róandi lyf. Á meðan þú bíður á biðstofunni eftir að lyfin virki förum við vandlega yfir það sem búast má við eftir aðgerð. Einnig er farið yfir lyfin sem þú þarft að nota í augun eftir aðgerð, en það eru sýklalyfjadropar og steradropar.
  • Eftir að hreinsað hefur verið létt í kringum augun með joðlausn kemur þú með okkur inn á skurðstofuna.
  • Þú mátt vera með einn aðstandanda inni hjá þér á meðan á aðgerðinni stendur.
  • Gefnir eru staðdeyfandi augndropar fyrir aðgerðina þannig að þú finnur lítið sem ekkert fyrir henni. Aðeins annað augað er meðhöndlað í einu.
  • Auganu sem er meðhöndlað er haldið opnu með augnsperru svo að engin hætta sé á að þú lokir því á meðan á aðgerð stendur.
  • Í LASIK-aðgerðum er fyrst búinn til flipi fremst á hornhimnunni með nýjustu tækni sem völ er á í dag – Ziemer LDV Z2 Femtosecond laser. Sjónlag er fyrsta og eina fyrirtækið á Íslandi sem býður uppá þessa tækni. Vegna deyfidropanna fylgir þessu enginn sársauki. Að því loknu er flipinn lagður til hliðar og laser-meðferð framkvæmd.
  • Lítið ljós í laser-tækinu hjálpar til við að halda auganu stöðugu allan tímann. Á lasernum er líka svokallaður fylgigeisli sem skoðar augað 1000 sinnum á sekúndu (1000Hz) og fylgir því eftir hvert sem það fer svo að laser-geislinn sjálfur fer alltaf á réttan stað á hornhimnunni, jafnvel þótt augað hreyfist ögn.
  • Lasertækið okkar, Schwind Amaris 750S, er hraðvirkasti augnlaser á Íslandi og notast við 750Hz geisla, sem með hraðvirkri eltivörn veitir meira öryggi við aðgerð en þekkst hefur hingað til.
  • Fylgjast má með aðgerðinni á skjá sem er yfir laser-tækinu og getur aðstandandi því horft á og fylgst með allan tímann.
  • Laser-meðferðin tekur yfirleitt mjög skamman tíma, í flestum tilvikum er henni lokið á vel innan við mínútu. Í gegnum aðgerðina útskýra læknirinn og hjúkrunarfræðingurinn fyrir þér hvað er verið að gera og hver næstu skref eru. 
  • Við lasermeðferðina finnur þú skrýtna lykt sem líkist lyktinni af brenndu hári. Þarna er þó enginn bruni á ferðinni, þar sem laserinn er það sem kallað er kaldur laser. Þetta er einungis lykt sem kemur fram við að lífræn efnasambönd rofna.

Eftir aðgerð

  • Að lokinni aðgerð eru augun skoðuð vandlega til að athuga hvort fliparnir sitji ekki vel og allt líti vel út.
  • Þegar heim er komið mælum við með því að þú leggir þig í einn til tvo klukkutíma með augun lokuð. Þar á eftir er ekkert sem kemur í veg fyrir að nota augun, til dæmis er í lagi að horfa á sjónvarp eða tölvu fljótlega eftir aðgerð. Að öðru leyti skal því þó tekið rólega það sem eftir er degi.
  • Flestir geta keyrt til okkar í skoðun daginn eftir og einnig farið til vinnu þann dag.

_SOS4215

Panta tíma í forskoðun

Eftirmeðferð

Árangur aðgerða okkar er mjög góður og bati almennt mjög skjótur. SmartPulse tæknin tryggir það enn frekar. Við fylgjum þér eftir eins og þurfa þykir. Einstaklingsbundið er hversu lengi sá tími varir, en langflestir útskrifast eftir 3 mánuði. Í einstaka tilfellum er nauðsynlegt að fylgja einstaklingi eftir í allt að 1 ár eftir aðgerð.

Strax daginn eftir aðgerð kemur þú til okkar í skoðun og það er mikilvægasta skoðunin. Þú kemur svo aftur í skoðun til okkar eftir þörfum. Algengast er að koma þremur mánuðum síðar og mögulega lengur ef þarf.

Ef einhverjar sveiflur í sjón mælast eða eitthvað annað kemur upp munum við fylgjast með þér lengur. Ef þörf er á fínstillingu á sjóninni getum við oftast lyft flipanum og framkvæmt laser-meðferð þar undir – flestum finnst það mun minna mál en upphaflega aðgerðin. Ef þetta reynist nauðsynlegt er það oftast gert innan 6 -12 mánaða frá aðgerð.