mobile
Leita

Mögulegir fylgikvillar

Algengir (≥1/100)

• Óskýr sjón og/eða skuggar eða tvöfaldar útlínur. Þetta eru ljósbrots aukaverkanir fjölfókus gerviaugasteina.
• Minnkun á kontrastsjón (breyting á blæbrigðum í gráa litaskalanum) getur valdið versnun á rökkursjón.
• Baugar/hringir og ljósgeislar út frá ljósi (t.d. frá götuljósum og ljósum bíla). Þetta er mest áberandi fyrstu mánuðina eftir aðgerðina og er vegna ljósbrots eiginleika fjölfókus gerviaugasteina.
• Hreyfanlegar flygsur eða þræðir í sjónsviðinu sem sjást best þegar horft er á ljósan bakgrunn. Þetta er vegna þéttinga í glerhlaupi augans og er eðlilegt fyrirbæri sem verður meira áberandi eftir augasteinsaðgerðina.
• Eftirský. Hýðið bak við gerviaugasteininn getur orðið ógagnsætt sem veldur því að sjónin versnar. Þetta getur gerst fljótlega eftir aðgerð eða mörgum árum síðar. Ástandið er einfalt að meðhöndla með lítilli laseraðgerð.
• Sumir geta fundið fyrir óþægindum af mismunandi tegundum af lýsingu, t.d. flúorljósi, fyrst eftir augasteinaskipti. Þetta er eitthvað sem venst og gengur yfir.
• Væg óþægindi og pirringur í augum er algengt í nokkrar vikur eftir aðgerðina.

Sjaldgæfir (<1/100)

• Viðvarandi óskýr sjón og/eða skuggar eða tvöfaldar útlínur
• Viðvarandi baugar/hringir og ljósgeislar út frá ljósi (t.d. frá götuljósum og ljósum bíla).
• Pirringur og óþægindi í augum og óskýr sjón. Er vanalega ekki viðvarandi ástand en getur varað í vikur/mánuði. Er þá mælt með gervitárum ásamt annarri meðhöndlun.
• Minnkuð sjónskerpa, þ.e. að sjónskerpan með eða án gleraugna verður ekki eins góð og með gleraugum fyrir aðgerð.
• Bjúgur í augnbotni (þeim hluta sjónhimnunnar þar sem skarpa sjónin er). Getur leitt til verri sjónar. Í flestum tilfellum gengur þetta yfir og sjón verður eins og áður. Bólgueyðandi dropar sem gefnir eru eftir aðgerðina minnka líkurnar á bjúgi.
• Þörf á lestrargleraugum þrátt fyrir fjölfókus gerviaugasteina.

Mjög sjaldgæfir (<1/1000)

• Sjónhimnulos. u.þ.b. 1 af hverjum 10.000 fá sjónhimnulos á ári hverju. Þeir sem gengist hafa undir augasteinsaðgerð eru í aukinni áhættu.
• Ef, vegna fylgikvilla í aðgerðinni, ekki er hægt að setja fjölfókus augasteininn á áætlaðan stað í auganu getur skurðlæknirinn valið að setja gerviaugastein með einum styrkleika (ekki fjölfókus). Þá getur verið þörf á gleraugum eftir aðgerðina.
• Bakteríusýking. Krefst skjótrar meðferðar með sýklalyfjum en sjóninni getur verið ógnað. Til að minnka áhættuna á alvarlegri sýkingu eru ávallt gefin sýklalyf í lok aðgerðar.

Hér að ofan er að finna helstu fylgikvilla sem upp geta komið við fjölfókus augasteinsaðgerð. Eins og með allar aðgerðir geta komið upp önnur og óvanalegri vandamál. Flest þessara vandamála eru meðhöndlanleg.