Sjónmælingar

Sjón er jafnan mæld með því að viðkomandi les bókstafi á spjaldi í 6 metra fjarlægð. Henni er oftast lýst með tveimur tölum í broti. Eðlilegri sjón er lýst sem 6/6 sjón. Hver lína á spjaldinu endar í tölu, sem táknar þá fjarlægð sem einstaklingur með eðlilega sjón sér þá línu. 
Talan fyrir ofan línu merkir þá fjarlægðina milli þess sem les og spjaldsins. Talan fyrir neðan línu táknar smæstu línu sem viðkomandi gat lesið. Dæmi: 6/9 táknar að lesin var í 6 metra fjarlægð lína sem einstaklingur með eðlilega sjón ætti að lesa í 9 metra fjarlægð. 

Margir spyrja hvort það þurfi að framkvæma sjónmælingu hjá augnlækni, þar sem nú mega optíkerar einnig sjónmæla. Þar sem hverjum og einum er í sjálfsvald sett hvar hann lætur mæla sjón sína getum við sett dæmið upp á eftirfarandi hátt í formi spurninga og svara:

0773

1. Hvað kostar að láta sjónmæla sig?

Optíker hjá Eyesland: kr. 2.900 .- 
Augnlæknir: Í skoðun hjá augnlækni er innifalin nákvæm augnskoðun læknis, þar á meðal skoðun á ytra auga, slímhúð, hvítu, hornhimnu, forhólfs, lithimnu og augasteins auk fremri hluta glerhlaups. Þessu til viðbótar eru sjóntaugar, augnbotnar og æðar skoðaðar. Út frá þessum mælingum er hægt að greina ýmsa augnsjúkdóma, s.s. ský á augasteini, hornhimnusjúkdóma s.s. keiluglæru, meta ástand augna eftir linsunotkun (t.d. við ofnotkun linsa), greina sykursýki í augnbotnum, kölkun, bjúgmyndun í augnbotnum, gláku, sjóntaugarrýrnun, háan blóðþrýsting o.fl. o.fl.

2. Er hægt að nýta sjónmælingu frá optíker t.d. fyrir ökuskírteini?

Nei, slíka sjónmælingu þarf að framkvæma hjá lækni

3. Segir sjónmæling ekki til um hvort augnsjúkdómar eru til staðar og varar mann við?

Til að greina augnsjúkdóma þarf að skoða augun nákvæmlega með sérstakri smásjá sem einungis augnlæknar nota. Aðeins augnlæknar mega greina og meðhöndla augnsjúkdóma. Sjúkdómur líkt og gláka getur verið mörg ár að valda óbætanlegu tjóni á augum áður en slíkt greinist við sjónmælingu. Því þarf að skoða augun reglulega hjá augnlækni. Mælt er með skoðun á a.m.k. fimm ára fresti til fimmtugs, ef ekki er um augnsjúkdóma að ræða eða sjónlagsgalla hjá viðkomandi, en eftir það á a.m.k. þriggja ára fresti. Ef um glákusögu er að ræða í fjölskyldu, eða kölkun í augnbotnum á unga aldri (þ.e. fyrir sextugt), þá er mælt með skoðun á a.m.k. þriggja ára fresti eftir fertugt.