Augasteinsskipti (CLE)

Refractive Lens Exchange (RLE)

Um sambærilega aðgerð að ræða og gerð er vegna skýs á augasteini (augasteinsaðgerð). Augasteinninn er fjarlægður og gerviaugasteinn settur í hans stað. Á þann hátt er unnt að leiðrétta nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju. Augasteinaskipti hafa verið framkvæmd í áratugi og því komin mikil og góð reynsla af aðgerðinni. Í vissum tilvikum er aðgerðin besta aðferðin til að laga sjónlagsgalla (nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju). Það á aðallega við um þá sem komnir yfir sextugt og þá sem eru með væga skýmyndun á augasteini án þess að sjónin sé farin að skerðast. Einnig getur aðgerðin verið kjörin fyrir þá sem eru með þunnar hornhimnur, þurr augu, væg hornhimnuvandamál eða mikinn sjónlagsgalla. Einn af kostum aðgerðarinnar er að sá sem hefur undirgengist augasteinaskipti á ekki á hættu að fá ský á augastein síðar meir. Fyrir þá sem vilja geta lesið án lesgleraugna er augsteinsskipti með ísetningu fjölfókus gerviaugasteins góður kostur.

 

Nýjar tegundur gerviaugasteina

Hefðbundnir gerviaugasteinar eru með fókus í einni fjarlægð.  Þetta þýðir að þeir sem fá slíka gerviaugasteina fá skýra sjón í einni fjarlægð, yfirleitt sjá þeir því ekki skýrt nálægt sér.  Flestir þurfa því að nota gleraugu t.d. við lestur. 

Stöðugt eru í þróun nýjar tegundir gerviaugasteina sem eiga það sameiginlegt að gera einstaklinga minna háða gleraugum, svokallaðir fjölfókus gerviaugasteinar (multifocal IOL). Rannsóknir sýna að um það bil 8 af hverjum 9 sjúklingum sem fá þessar tegundir gerviaugasteina þurfa aldrei að nota gleraugu. Þeir eru því spennandi valkostur við hefðbundna gerviaugasteina fyrir þá sem eru með ský á augsteini og vilja geta séð sem mest án gleraugna eftir augasteinsaðgerð. Þeir eru ekki síður spennandi kostur fyrir þá sem eru þreyttir á gleraugunum og vilja geta séð bæði nálægt sér og frá sér gleraugnalaust.