Augasteinsaðgerð

Augasteinsaðgerð er smásjáraðgerð þar sem augasteinninn er mulinn niður inni í auganu og fjarlægður úr hýði síni gegnum lítið gat á hornhimnunni. Síðan er gerviaugasteinn settur í hýðið utan af “gamla” augasteininum. Skurðina þarf venjulega ekki að sauma. Aðgerðin tekur einungis 10-15 mínútur og er gerð í dropadeyfingu. Nánari lýsing fylgir að neðan.

Á aðgerðardaginn

Sjúklingur skal fara í sturtu um morguninn og þvo sér um hár. Ekki er nauðsynlegt að fasta fyrir aðgerðina. Boðið er upp á róandi töflu. Sjúklingur fær lyf sem víkka ljósopið og deyfa augað. Þegar inn á skurðstofuna er komið er þrifið í kringum augað með joði. Algengt er að það klæi í nefið á eftir en þrátt fyrir það má alls ekki klóra sér í nefinu. Settur er hlífðardúkur kringum augað og síðan er sett augnsperra sem heldur augnlokunum í sundur meðan á aðgerðinni stendur. Lýst er í augað með sterku ljósi á aðgerðarsmásjánni. Horfa á í ljósið meðan á aðgerðinni stendur, þó sumum reynist það erfitt.

Eftir aðgerðina

Nauðsynlegt er að hafa hægt um sig fyrsta sólarhringinn eftir aðgerðina. Það má alls ekki nudda augað og forðast að bogra, rembast og lyfta þungu. Það reynist mörgum gott að nota sólgleraugu utanhúss. Verkir eru sjaldgæfir eftir þessa aðgerð. Það er í lagi að taka hefðbundin verkjalyf, t.d. parasetamól, eftir aðgerðina. Eftir á að nota augndropa sem heita Maxidex í u.þ.b. 3 vikur. Þeir innihalda bólgueyðandi lyf. Eftirlit er í fyrstu viku eftir aðgerðina. Breyting verður á sjónlagi augans við aðgerðina svo breyta þarf gleraugum þegar augað er búið að jafna sig sem er venjulega eftir 4-6 vikur.


Glákusjúklingar eiga að taka glákudropana sína á sama hátt eftir aðgerðina og þeir hafa gert fyrir aðgerðina. Mikilvægt er þó að byrja á óopnaðri flösku.

 

Augasteinsskipti(CLE)

Refractive Lens Exchange (RLE)

Um sambærilega aðgerð að ræða og gerð er vegna skýs á augasteini (augasteinsaðgerð). Augasteinninn er fjarlægður og gerviaugasteinn settur í hans stað. Á þann hátt er unnt að leiðrétta nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju. Augasteinaskipti hafa verið framkvæmd í áratugi og því komin mikil og góð reynsla af aðgerðinni. Í vissum tilvikum er aðgerðin besta aðferðin til að laga sjónlagsgalla (nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju). Það á aðallega við um þá sem komnir yfir sextugt og þá sem eru með væga skýmyndun á augasteini án þess að sjónin sé farin að skerðast. Einnig getur aðgerðin verið kjörin fyrir þá sem eru með þunnar hornhimnur, þurr augu, væg hornhimnuvandamál eða mikinn sjónlagsgalla. Einn af kostum aðgerðarinnar er að sá sem hefur undirgengist augasteinaskipti á ekki á hættu að fá ský á augastein síðar meir. Fyrir þá sem vilja geta lesið án lesgleraugna er augsteinsskipti með ísetningu fjölfókus gerviaugasteins góður kostur.

_SOS7908

Fjölfókus gerviaugasteinar

 Sjúklingar sem fá hefðbundna gerviaugasteina fá yfirleitt góða sjón, sérstaklega til að sjá frá sér. Flestir sjúklinganna þurfa þó að nota gleraugu til að sjá vel nálægt sér, t.d. við lestur. 

Stöðugt eru í þróun nýjar tegundir gerviaugasteina sem eiga það sameiginlegt að gera einstaklinga minna háða gleraugum. Rannsóknir sýna að um það bil 8 af hverjum 9 sjúklingum sem fá þessar tegundir gerviaugasteina þurfa aldrei að nota gleraugu. Þessir gerviaugasteinar eru því spennandi valkostur við hefðbundna gerviaugasteina fyrir þá sem eru með ský á augsteini og vilja geta séð sem mest án gleraugna eftir augasteinsaðgerð. Þeir eru ekki síður spennandi kostur fyrir þá sem eru þreyttir á gleraugunum og vilja geta séð bæði nálægt sér og frá sér gleraugnalaust.

Hér að neðan má sjá fróðlegt myndband um ský á augasteini frá Óskari Jónssyni augnlækni.